Sálmeðferð miðar að því að koma auga á hvað hindrar okkur í að lifa sem mest áhyggjulaus, tengd líkama okkar og í raunveruleikanum. Það geta verið sársaukafullar upplifanir snemma á lífsleiðinni sem mótuðu heftandi varnarmunstur og ýmis áföll síðar á lífsleiðinni sem draga úr getu okkar til að njóta þess sem við búum yfir og lifa til fulls. Sálmeðferð á að hjálpa okkur að afkóða þessi ómeðvituðu varnarmunstur og sýna okkur fram á fleiri valkosti í lífinu. Þannig dregur sálmeðferðin úr streytu og bætir andlega og líkamlega heilsu.

Við byggjum á þeim raunveruleika sem við búum við á hverjum tíma, þaðan sjáum við hvað er hægt að gera til að stuðla að breytingum. Stundum er bara hægt að taka lítil og varfærnisleg skref í átt að breytingum, skerf sem engu að síður eru mikilvæg.

,,Endurtekin reynsla geymist í líkamanum og verður að staðreynd. “  Gáfaða dýrið,  Sæunn Kjartansdóttir.

Líkamsmiðuð sálmeðferð leggur áherslu á tengslin milli tilfinninga, hugar og líkama. Líkaminn geymir og tjáir allt á einhvern hátt. Hann geymir tilfinningar sem ekki fengu farveg og viðbrögð sem frusu í erfiðum aðstæðum. Með því að taka líkamann með í sálmeðferð aukum við möguleika okkar á raunverulegum breytingum.

Af hverju sálmeðferð? Lífið ber óhjákvæmilega með sér breytingar og allskonar álag sem getur verið erfitt að aðlagast og vinna úr. Sálmeðferð á að auðvelda jákvæðar breytingar hjá þeim sem leita að betri tilfinningalegri og félagslegri virkni, hún miðar að því að bæta líðan og heildarlífsgæði.

Sálmeðferð er mislöng, eftir því hvert markmiðið hennar er. Áður en meðferð hefst er gott að setja sér markmið um það hvað það er sem maður vill fá út úr meðferðinni.

Það þarf hugrekki að ákveða að fara í sálmeðferð. Það getur verið kvíðavaldandi að finna sér góðan og heppilegan meðferðaraðila, sérstaklega ef þú ert að ganga í gegnum krefjandi tíma og sársaukafullar tilfinningar og upplifanir.

Kannski er ástæðan fyrir því að þú leitar að sálmeðferðarfræðingi að þig þyrstir í að eiga samtal og vinna með sjálfa þig þannig að þú öðlist meiri þroska og sjálfsskiilning, af því þú vilt vaxa sem manneskja!

Þú hefur val. Það er mikilvægt að vera meðvituð um að við stöndum alltaf frammi fyrir valkostum. Í sálmeðfeð skoðum við hvaða valkostir blasa við í lífi þínu í dag.

Hvað viltu?

Hvað stoppar þig?

Hvað skiptir þig mestu máli?

Hverju ertu tilbúin að fórna  til að öðlast það sem þú vilt í raun og veru?

Það að beita sig hörku og dæma sjálfa sig, gerir ekki neinum gott.

Það sem við getum gert er að reyna að átta okkur á hvaða hluta af okkur sjálfum gagnrýnisraddirnar innra með okkur eru að verja, fikra okkur síðan áfram og skoða hvort aðrir möguleikar séu í stöðunni, og hægt og bítandi sýna sér samkennd og mildi í hverju skrefi.

Bráða- og ráðgjafarþjónusta geðsviðs
AA samtökin á Íslandi

UM LILJU STEINGRÍMSDÓTTUR

Ég heiti Lilja Steingrímsdóttir og starfa sem Bodynamic sálmeðferðarfræðingur. Ég býð þér uppá öruggt og þægilegt rými fyrir samtal og sállíkamlega vinnu. Mitt hlutverk er að styðja við þig í þeirri vinnu sem þú treystir þér í og sýna þér leiðir sem geta gagnast þér og aukið færni þína og sjálfskilning.

LESA NÁNAR