Í þættinum Uppástand á RÚV, fjallar Lilja Steingrímsdóttir um Líf. Tekið upp 4/10 flutt í þættinum 7/11 2024.

Mig langar mest til að tala um dauðann, fyrst ætla ég þó að tala um hvað lífið er mikið kraftaverk.

Líkurnar á því að aðstæður sköpuðust fyrir lífi á jörðunni voru mjög tæpar, eða 1 á móti 10 í þriggja milljónasta veldi. Jafn líklegt og að ég vinni stóra vinninginn í Víkingalottóinu í hverri viku, samfellt í þrjú ár. Vísindamenn vita hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar fyrir lífi á jörðinni en geta ekki útskýrt hvernig líf kviknaði.

Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus segir “Það eru fyrstu skref lífmyndunar sem allra erfiðast er að skilja og þar er stór eyða í þekkingu okkar og langt frá því augljóst að líf þróist úr “súpu” lífrænna þátta.” Mestu leyndardómar lífsins snúast um upphaf lífsins og alheiminn, um eðli meðvitundar og flókið samspil tilfinninga og samskipta.

Michael Collins geimfari í Appollo 11 varð fyrir áhrifaríkri upplifun þegar hann horfði á jörðina utan úr geymnum í fyrsta sinn, „ég var undrandi og skyndilega meðvitaður um hvernig allt á jörðinni er stimplað í hvert einasta atóm líkama míns“. „á þessari viðkvæmu litlu kúlu“ – var „allt sem ég hafði nokkurn tíma þekkt, allt sem ég hafði nokkru sinni elskað og hatað, þráð, allt sem ég hélt einu sinni að hefði verið og myndi nokkurn tíma verða“ Aðrir geimfarar hafa einnig lýst sterkri andlegri upplifun þegar þeir horfðu á jörðina utan úr geimnum í allri sinni dýrð, svo margir að þetta fyrirbæri hefur fengið heitið “overview effect“. – þeas áhrif af svona mikilli yfirsýn. Við forðumst ómeðvitað “tómið” eða það sem við óttumst að sé “ekkert” þegar við deyjum og eigum erfitt með að hugsa um eigin dauða og þeirra sem eru okkur kærir.

Það var mikið rætt um það á Hjúkrunarþingi sem ég var á um daginn og fjallaði um “Hjúkrun við lífslok”, að leysa þyrfti upp tabúið í kringum það að tala um dauðann, að við þurfum að opna umræðuna um dauðann sem óhjákvæmilegan og eðlilegan hluta af lífi okkar allra.

Að velta fyrir sér óumflýjanleika dauða okkar getur hjálpað okkur að njóta einfaldrar ánægju og vera þakklát fyrir fólkið og reynsluna í lífi okkar og öðlast meiri innri frið. Við erum að æfa einhverskonar dauða við allar breytingar, við þurfum að losa tökin og sleppa einu til að annað geti fengið rými, það er ekki bæði haldið og sleppt, lífið er í söðugri umbreytingu og framþróun. Ég las einhverstaðar að stærsta uppgötvun síðustu aldar hafi verið að menn gætu breyst. Að við værum ekki dæmd til að endurtaka sífellt sama munstrið og sömu þjáningarnar. Að það væru til leiðir sem geta hjálpað okkur að breyta lífi okkar og öðlast hamingju.

Sören Kirkegård sagði að við ættum ekki að hafa neinar áhyggjur af dauðanum, hann kæmi hvort sem er. Ég skil þetta svo að við eigum að lifa lífinu hér og nú, ekki velta okkur uppúr fortíðinni, gleyma okkur í dagdraumum eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Mér finnst hann vera að segja að við ættum að reyna að taka lífinu ekki of alvarlega og ekki taka öllu svona persónulega. Ég get vitnað um það sem hjúkrunarfræðingur á líknardeild að fólk missir ekki húmorinn þótt það sé að nálgast eigin dauða og það heldur áfram að vera það sjálft, er kannski bara meira það sjálft.

Memento Mori: “Mundu að þú átt eftir að deyja” var einn helsti kjarninn í heimspeki fornaldar, æfing til þess ætluð að kenna okkur að meta lífið og lifa því til fulls.

Carpe Diem: “Gríptu daginn” er líka úr fornöld og skilaboð um að njóta hvers dags, eta, drekka og vera glöð í dag því við vitum ekkert um morgundaginn og hvað hann ber í skauti sér.Við eigum þakka fyrir hverja stund, því tími er það eina sem við eigum og einn daginn áttum við okkur á því að við eigum minna af honum en við héldum.

Öll þessi pæling um dauðann og hverfulleikann í lífinu er lykill að hamingju, við neyðumst þá til viðurkenna að við höfum ekkert vald yfir gangverki lífsins, við erum bara partur af því. Það að vinna með deyjandi fólki er gefandi og þroskandi. Maður verður að vera ekta í samskiptum við deyjandi fólk, nó nonsens takk og vera í augnablikinu. Mín reynsla af að vinna með deyjandi fólki er að flestir eru óhræddir við að deyja og hafa íhugað dauðann og náð einhverskonar sátt. Fólk almennt býr yfir mikilli seglu og visku sem kemur helst í ljós þegar á reynir. Að deyja er ekkert sem þarf að óttast, það er mun minna drama að deyja en margir halda.

N.b. Sú sem þetta skrifar talar ekki af reynslu um það að deyja og gerir sér grein fyrir því að það að standa frammi fyrir eigin dauða er hvorki auðvelt né léttvægt.