Líf-dauði

Í þættinum Uppástand á RÚV, fjallar Lilja Steingrímsdóttir um Líf. Tekið upp 4/10 flutt í þættinum 7/11 2024.

Mig langar mest til að tala um dauðann, fyrst ætla ég þó að tala um hvað lífið er mikið kraftaverk.

Líkurnar á því að aðstæður sköpuðust fyrir lífi á jörðunni voru mjög tæpar, eða 1 á móti 10 í þriggja milljónasta veldi. Jafn líklegt og að ég vinni stóra vinninginn í Víkingalottóinu í hverri viku, samfellt í þrjú ár. Vísindamenn vita hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar fyrir lífi á jörðinni en geta ekki útskýrt hvernig líf kviknaði.

Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus segir “Það eru fyrstu skref lífmyndunar sem allra erfiðast er að skilja og þar er stór eyða í þekkingu okkar og langt frá því augljóst að líf þróist úr “súpu” lífrænna þátta.” Mestu leyndardómar lífsins snúast um upphaf lífsins og alheiminn, um eðli meðvitundar og flókið samspil tilfinninga og samskipta.

Michael Collins geimfari í Appollo 11 varð fyrir áhrifaríkri upplifun þegar hann horfði á jörðina utan úr geymnum í fyrsta sinn, „ég var undrandi og skyndilega meðvitaður um hvernig allt á jörðinni er stimplað í hvert einasta atóm líkama míns“. „á þessari viðkvæmu litlu kúlu“ – var „allt sem ég hafði nokkurn tíma þekkt, allt sem ég hafði nokkru sinni elskað og hatað, þráð, allt sem ég hélt einu sinni að hefði verið og myndi nokkurn tíma verða“ Aðrir geimfarar hafa einnig lýst sterkri andlegri upplifun þegar þeir horfðu á jörðina utan úr geimnum í allri sinni dýrð, svo margir að þetta fyrirbæri hefur fengið heitið “overview effect“. – þeas áhrif af svona mikilli yfirsýn. Við forðumst ómeðvitað “tómið” eða það sem við óttumst að sé “ekkert” þegar við deyjum og eigum erfitt með að hugsa um eigin dauða og þeirra sem eru okkur kærir.

Það var mikið rætt um það á Hjúkrunarþingi sem ég var á um daginn og fjallaði um “Hjúkrun við lífslok”, að leysa þyrfti upp tabúið í kringum það að tala um dauðann, að við þurfum að opna umræðuna um dauðann sem óhjákvæmilegan og eðlilegan hluta af lífi okkar allra.

Að velta fyrir sér óumflýjanleika dauða okkar getur hjálpað okkur að njóta einfaldrar ánægju og vera þakklát fyrir fólkið og reynsluna í lífi okkar og öðlast meiri innri frið. Við erum að æfa einhverskonar dauða við allar breytingar, við þurfum að losa tökin og sleppa einu til að annað geti fengið rými, það er ekki bæði haldið og sleppt, lífið er í söðugri umbreytingu og framþróun. Ég las einhverstaðar að stærsta uppgötvun síðustu aldar hafi verið að menn gætu breyst. Að við værum ekki dæmd til að endurtaka sífellt sama munstrið og sömu þjáningarnar. Að það væru til leiðir sem geta hjálpað okkur að breyta lífi okkar og öðlast hamingju.

Sören Kirkegård sagði að við ættum ekki að hafa neinar áhyggjur af dauðanum, hann kæmi hvort sem er. Ég skil þetta svo að við eigum að lifa lífinu hér og nú, ekki velta okkur uppúr fortíðinni, gleyma okkur í dagdraumum eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Mér finnst hann vera að segja að við ættum að reyna að taka lífinu ekki of alvarlega og ekki taka öllu svona persónulega. Ég get vitnað um það sem hjúkrunarfræðingur á líknardeild að fólk missir ekki húmorinn þótt það sé að nálgast eigin dauða og það heldur áfram að vera það sjálft, er kannski bara meira það sjálft.

Memento Mori: “Mundu að þú átt eftir að deyja” var einn helsti kjarninn í heimspeki fornaldar, æfing til þess ætluð að kenna okkur að meta lífið og lifa því til fulls.

Carpe Diem: “Gríptu daginn” er líka úr fornöld og skilaboð um að njóta hvers dags, eta, drekka og vera glöð í dag því við vitum ekkert um morgundaginn og hvað hann ber í skauti sér.Við eigum þakka fyrir hverja stund, því tími er það eina sem við eigum og einn daginn áttum við okkur á því að við eigum minna af honum en við héldum.

Öll þessi pæling um dauðann og hverfulleikann í lífinu er lykill að hamingju, við neyðumst þá til viðurkenna að við höfum ekkert vald yfir gangverki lífsins, við erum bara partur af því. Það að vinna með deyjandi fólki er gefandi og þroskandi. Maður verður að vera ekta í samskiptum við deyjandi fólk, nó nonsens takk og vera í augnablikinu. Mín reynsla af að vinna með deyjandi fólki er að flestir eru óhræddir við að deyja og hafa íhugað dauðann og náð einhverskonar sátt. Fólk almennt býr yfir mikilli seglu og visku sem kemur helst í ljós þegar á reynir. Að deyja er ekkert sem þarf að óttast, það er mun minna drama að deyja en margir halda.

N.b. Sú sem þetta skrifar talar ekki af reynslu um það að deyja og gerir sér grein fyrir því að það að standa frammi fyrir eigin dauða er hvorki auðvelt né léttvægt.


Varnarhættir

Varnarviðbrögð fara í tvær áttir,  í átt að uppgjöf og í átt að mótstöðu.

Í æsku byrjum við að móta varnarhætti, þá mynda þeir í okkur djúpa kóða, sumir eru aðgengilegir og tiltölulega sveigjanlegir, aðrir liggja djúpt og getur verið erfitt að breyta.

Varnarhátturinn “uppgjöf/undirspenna” myndast þegar við bregðumst við álagi í samskiptum með því að gefa eftir hluta af sjálfum okkur til að viðhalda tengingunni. Uppgjöfin veldur undirspennu í vöðvum og bindivef, það skapar tómleikatilfinningu “eins og eitthvað vanti...veit ekki hvað”. Þeir sem eru djúpa innprentun uppgjafar geta verið með svokallaðar “svartar holur” - vita ekki hvað þeir vita ekki, og taka að sé verkefni sem þeir kunna ekki eða geta ekki og taka að sér miklu meira en þeir ráða við. Eru gjarnan með takmarkaða orku.

Varnarhátturinn “mótstaða/yfirspenna” skapast þegar við bregðumst við álagi með því að fórna sambandinu til að halda í okkur sjálf og það sem við teljum vera okkar. Þessi varnarháttur býr til brynju og þeir sem eru með mikla mótstöðu eru stífir, yfirspenntir og með yfirspennta vöðva. Þessi varnaraháttur ýtir frá sér og á erfitt með að hleypa inn.

Það er ákjósanlegt að geta fært sig meðvitað milli uppgjafar og mótstöðu, án þess að læsast. Þannig skapast vitund um eigin styrkleika og veikleika sem aftur býr til heilbrigt sjálfsöryggi. Þeir sem hafa “nógu” sveigjanlegan aðgang að báðum varnarviðbrögðunum búa yfir “hvítri holu”, virku innsæi og gagnlegri innri þekkingu sem hægt er að reiða sig á, þeir hafa breytileg orku sem aðlagar sig eftir þörfum.

Allir þurfa að byggja upp varnarhætti sem tilheyra þeim verkefnum sem hvert þroskaskeið kemur með, sveigjanlegir varnarhættir eru nauðsynlegir til að takast á við lífið.


Listin að leysa hnúta


BODYKNOT – LISTIN AÐ LEYSA HNÚTA –

Bodynamic hannaði Bodyknot líkanið til að kortleggja viðbrögð í samskiptum og komast að því hvar hlutirnir fóru úrskeiðis.

Talað mál er oft ónákvæmt tjáningaform og getur auðveldlega skapað misskilning sem kallar á viðbrögð.  “En ég hélt að …”  “Sagðir þú ekki….?”

Kannski gerir maður eitthvað í þeirri trú að það muni gleðja sem svo reynist ekki vera rétt mat, eða þú telur þig fylgja innsæinu og það reynist alrangt eða óheppilegt.

Ef svona misskilningur er ekki leiðréttur eins fljótt og hægt er getur það leitt af sér flókin ágreining, slitin vinarbönd og glötuð tækifæri.

Orðið „hnútur“ varð fyrir valinu því „hnútar“ myndast auðveldlega í samskiptum. Annað hvort í formi misskilnings, tregðu eða stíflu, sem fólk upplifir á líkamlegan hátt, s.s. líkamshlutar herpast saman, missa máttinn eða lokast.

Þegar samskipti eru komin í hnút geta myndast enn fleiri hnútar. Það skiptir máli að losa um fyrsta hnútinn strax og hann gerir vart við sig og yfirleitt losa um hnúta eins fljótt og unt er eftir að þeir uppgötvast.

Bodyknot líkanið- skýrir og losar um hnúta og greinir flækjurnar.

Hér er greining á því sem gerist í samskiptum:

0. Samhengið / grunnstemningin sem hefur áhrf á aðstæðurnar, viðbrögðin og upplifunina

  1. Ytri skynjun (skynfærin fimm), staðreyndir, ég sé, ég heyri og 6. skilningavitið (innsæið)2.
  2. Tilfinningar
  3. Túlkun / hugmynd
  4. Líkamleg – innri skynjun5
  5. Hvöt til aðgerða/ Impúls
  6. Greining (meta afleiðingar mismunandi viðbragða )
  7. Val
  8. Framkvæmd

Þetta gerist allt leifurhratt, til að greina þessa þætti þarf að hæga á öllu og staldra við.

0. SAMHENGI OG GRUNNUSTEMMNING.  Samhengi snýr að reynsluheimi okkar og dagsformi.

  • Ytri umgjörð þegar atburðurinn átti sér stað:  Með hverjum ertu? Hver er tilgangurinn? Er ákveðin tímaáætlun? ….
  • Hvað er í “bakpokanum”?. Þar er allt sem hefur gerst áður en atburðinn átti sér stað”.
  • Hverju er ég á höttunum eftir?
  • Hvað kemur mér úr jafnvægi?
  • Fyrir hverju er ég viðkvæm?
  • Atriði tengd t.d. upprunafjölskyldu, hjónabandi, vinskap, foreldrum….

1. YTRI SKYNJUN – er um staðreyndir, án túlkunar. Hún er um það sem maður skynjar í gegnum skilningarvitin fimm : sjón, lykt, heyrn, bragð, snertingu og einnig það sem maður skynjar með sjötta skilningarvitinu. Sjötta skilningavitið gefur okkur fyrirboða sem koma ekki frá líkamlegri skynjun, en geta engu að síður reynst réttir. Menn hafa þróað með sér mis mikla tengingu við sjötta skilningavitið, almennt er hún hvorki viðurkennd né metin í vestrænni menningu.

2. TILFINNINGAR eru viðbrögð sem koma samhliða líkamsskynjun. Bodynamic skilgreinir sjö grunntilfinningar – gleði, sorg, reiði, ótti, ógeð, skömm og kynferðislega tilfinningu – þær geta verið til staðar af mismiklum styrkleika, einar sér eða blandaðar saman á margvíslegan hátt.

Það er gagnlegt að skoða hvernig tilfinningarnar blandast og styrkleika ( „prósentu“) hverrar þeirra fyrir sig.  Til dæmis er hægt að vera eitt prósent ánægð, 2 prósent reið eða 5 prósent kynferðislega örvuð. Það er hins vegar einnig hægt að finna 0 prósent af öllum tilfinningum.

Að segja að „ekkert sé að gerast“ er líka í góðu lagi. Ef þú sættir þig við að „ekkert sé að gerast“ geturðu verið alveg viss um að eitthvað muni gerast á endanum.

Sem dæmi um „samsett“ tilfinningaástand má nefna spennu, afbrýðisemi, leiða, særindi, pirring, beiskju, ánægju, hafa grun, vera vandræðalegur og feimin. Það mætti lýsa tilfinningaástandi sem prósentublöndu af grunntilfinningunum. Tiltekin manneskja gæti til dæmis lýst afbrýðisemi svona: 30 prósent reiði, 30 prósent kvíði, 30 prósent skömm, 6 prósent sorg og 4 prósent kynferðisleg tilfinning. Annar einstaklingur gæti haft aðra prósentusamsetningu þegar hann finnur fyrir afbrýðisemi.  Að æfa sig í að skoða styrkleika og samsetningu tilfinninga er áhugavert og lærdómsríkt.

Talandi um tilfinningar, þá má benda á að í Bodynamic eru þær hvorki taldar jákvæðar né neikvæðar. Það eru miklu fjölbreyttari og flóknari hlutir á bak við hverja tilfinningu en svo að hægt sé að flokka þær þannig.  Til dæmis ef við skoðum reiðina þá er hún eins og allar aðrar tilfinningar, tjáning lífsins, til merkis um að þú leyfir öðrum að hafa áhrif á þig og að annað fólk skiptir þig máli, en reiði sem ekki er unnið úr getur breyst í hatur og sundrung.

Til að skapa skýr samskipti um tilfinningar er mikilvægt að undirliggjandi hugmynd og túlkun sé skýr. Ef þú til dæmis segir „ég er hrædd við þig“ er óljóst hvað þú meinar því þú tilgreinir ekki ástæðuna. Hinn aðilinn verður að ímynda sér hver ástæðan gæti verið. Samskipti verða nákvæmari því skýrari sem þú setur fram tilfinningar þínar og túlkanir.

Dæmi:

“Ég er hrædd við þig.”

“Ég er hrædd við þig þegar þú öskrar á mig.”

„Ég er hrædd við þig þegar þú öskrar á mig því ég held að þú sért að fara að reka mig út”.

Það er augljóslega auðveldara að stilla og leiðrétta samskipti, því nákvæmari sem þú ert í að greina á milli ytri skynjunar (staðreynda), tilfinninga, túlkunar og líkamlegrar skynjunar.

3. TÚLKUN –  er hugsanaferlið sem við förum í gegnum til að skilja skynjun okkar.

Hún getutr falið í sér dagdrauma, skilning, ímyndun, skonðun og upplifun.  “Ég held”,  “ég skil”, “ég hugsa”.  Það er líka hægt að spyrja í stað þess að túlka, “hvað meinar þú þegar þú gerir svona, segir svona..? Þannig hægjum við á öllu og gefum okkur ráðrúm.

Túlkun er um það hvernig við upplifum ytri skynjun, sjón og heyrn eru venjulega mikilvægust. Túlkanir eru mjög háðar fyrri reynslu. Ef til dæmis ytri skynjun virkar kvíðavekjandi getur hún leitt til of einfaldrar túlkunar, byggða á takmarkaðri reynslu. Sá sem hefur aðgang að fjölbreyttri reynslu er aftur á móti opnari í túlkun sinni og hefur því fleiri möguleika..

Mikið af misskilningi stafar af því að skynjun er blandað saman við túlkanir. Túlkanir eru að miklu leyti byggðar á munsti gamallrar reynslu. Ef t.d. einhver setur í brýrnar túlka margir það sem merki um reiði, það gæti þó allt eins þýtt að viðkomandi sé að einbeita sér.

Ef þú vilt hafa skýr samskipti þarftu að forðast orðin „af því“ og „en“ í tengslum við túlkanir. Þessi orð eru oft notuð til að draga úr því sem sagt var og til að komast burtu frá eigin tilfinningum. „Af því“ og „en“ búa líka auðveldlega til lokaða hringrás milli hugsana og skýringa– á kostnað þess að vera tengdur. Ennfremur búa „af því“ og „en“ auðveldlega til afsakanir fyrir því sem þú ert að segja; til dæmis: „ég held að þú sért reiður, en það er bara  af því að…“ eða „Mér líkar hugmyndin þín, en hún er líklega bara ekki …“

4. INNRI SKYNJUN – er líkamleg upplifun sem fylgir túlkuninni. Hvað gerist í líkama þínum þegar þú heldur að hin manneskjan meini X? Upplifunin getur verið ánægjuleg eða óþægileg. Hún getur líka komið fram sem ósjálfráð taugaviðbrögð, til dæmis aukin adrenalín framleiðsla, hraður púls, hita- eða kuldatilfinning og sem hreyfing, spenna, titringur, doði, flæði og breytt tímaskyn. Það er mikilvægt að aðskilja líkamlega upplifun frá túlkun. Það er  líka mikilvægð að skapa líkamlegt “rými” fyrir tilfinningar og upplifanir og staðsetja þær í líkamanum. Líkamsskynjun getur ekki verið röng; en túlkun þín á því sem hún kann að þýða getur verið röng.

5. HVÖT –  (impuls) til að gera eitthvað, segja eitthvað, tjá eitthvað, hreyfa eitthvað, snerta eitthvað, koma nær, færa sig fjær, frjósa. Hvötin er óritskoðuð, kemur frá þeim hlutum heilans þar sem ekkert tungumál er. Að gera sér grein fyrir hvötinni sem kemur upp, þó henni sé ekki fylgt eftir, býr til sannari samskipti. Hvatirnar koma frá undirmeðvitudninni sem er  að segja okkur eitthvað. Það er áhugavert að dvelja aðeins við og upplifa hvötina eins og áhorfandi; sérstaklega ef hægt er að forðast að fella dóma.

6. GREINING Mismunandi möguleikar vegnir. Skoða afleiðingar þess að fylgja hvötinni og fleiri möguleikar skoðaðir.

7. VALIÐhvernig á að bregðast við, svara. Margir líta framhjá því að jákvætt val felur sjálfkrafa í sér neikvætt val. Með því að velja eitt til, velur þú annað frá.

8. FRAMKVÆMD –  er um það að gera eða segja eitthvað.

Þessi þáttur þarf að vera studdur af öllum hinum þáttunum. Valið um hvað á að gera getur verið mjög erfitt. Dæmi: „Þegar þetta gerist langara mig til að fara (hvati), af því að mér finnst mér hafnað (innri skynjun og tilfinningar), en það er mikilvægt fyrir mig að leysa vandamálið (grunnstemning) og ég hef engan áhuga á að það verði enn verra (grunnstemning), sem mundi gerast ef ég færi (greining). Þannig að ég mun vera áfram og takast á við vandamálið (valið). En til að gera það svo vel sé, verð ég að heyra þig segja (greining) að þú hafir líka áhuga á að leysa vandamálið (greining) og að þú sért tilbúin að hlusta á mína útgáfu af sögunni.”

Hér er að því er virðist venjulegt og einfalt samskiptaferli gert óþarflega flókið – sumir gætu sagt að það sé stíft og þvingað – þegar því er lýst á þennan hátt. Það er hins vegar reynsla Bodynamic meðferðarkerfisins að því meiri skýrleiki, því minni líkur á misskilningi og þar með betri samskipti.

Ein af sterkustu hliðum Bodyknot-líkansins er að það gefur okkur möguleka á að prófa hvort hugmyndir eigi rætur í raunveruleikanum, séu ímyndun eða litaðar af fyrri reynslu.

Með því að  þjálfa hæfileikann til að vera nákvæmur í að skynja og skilgreina staðreyndir, líkamsskynjun og tilfinningar getum við komið í veg fyrir árekstra í samskiptum og leyst ágreining sem þegar er orðinn. Bodyknot -líkanið er traust og áreiðanlegt tæki til að þjálfa skýr og heiðarleg samskipti.


Sefa öldur kvíðans

Að sefa öldur kvíðans.

Sá hluti af þér sem er hræddur, viðkvæmur og óöruggur – þarf á ró og huggun að halda, ekki gagnrýni og refsingu. Reyndu að hugsa um þig sjálfa(n) eins og elskandi foreldri eða vinur.

Börn sem búa við öryggi og ástríki eru sefuð og hughreyst af foreldrum sínum þegar þau eru hrædd, þannig læra þau sjálfssefjun sem gagnast þeim út allt lífið. Ef þessu var ekki þannig háttað hjá þér, eða ef þú hefur lent í alvarlegum áföllum á lífsleiðinni, er hugur þinn og líkami kannski oft í skelfingar eða streytuástandi. Þá er er gott að kunna aðferðir sem róa hugan, líkamann og tilfinningarnar.

Róandi aðferðir sem byggja á skilningarvitunum

SJÓN

  • Sjáðu fyrir þér mynd af einhverju (einhverjum) sem virkar hughreystandi.
  • Skoðaðu myndir af stöðum eða fólki sem tengjast ánægjulegum minningum.
  • Farðu í göngutúr, virtu fyrir þér trén, blómin og náttúruna.
  • Horfðu á fallegt sjónvarpsefni, t.d. náttúrulífsmyndir.

SNERTING

  • Það er gott að snerta gæludýr eða eitthvað mjúkt, það er hughreystandi fyrir barnið í þér sem þarf huggun og öryggi. Kannski áttu föt sem tilheyra þér eða einhverjum sem þér þykir vænt um sem þú getur snert til að róa þig.
  • Sumir kjósa að fara í heitt bað, síðan í þægileg föt og vefja sig inn í sæng.
  • Sumum finnst gott að halda á og kreista hlut sem gefur „jarðtengingu, eins og stein eða lítinn bolta.
  • Það getur verið róandi að setja kaldan bakstur á höfuð og háls, fara í fótabað eða kúra með eitthvað sem gefur il og ilmar vel.
  • Bera rakakrem á andlit og líkama, nudda handáburði hægt og rólega á hendurnar og greiða eða bursta hárið.
  • Þurrbursta líkamann.

LYKT

  • Reyndu að finna ilm sem hentar þér. Getur verið ilmvatn eða rakakrem, ilmkerti
  • ilmkjarnaolía  (t.d. Jasmín eða lavender) krydd, blóm, kaffi. 
  • Ilmur af náttúrunni róar okkur og jarðtengir.
  • Það veitir vellíðan að vera úti og anda að sér fersku lofti.

HLJÓÐ

  • Tónlist geta verið róandi.
  • Búðu til lagalista sem þú getur hlustað á þegar þú ert í uppnámi.
  • Náttúruhljóð eins og fuglasöngur, dýrahljóð eða ölduhljóð eru róandi.
  • Gott er að tala við einhvern sem getur huggað og hughreyst þig.

BRAGÐ

  • Það getur verið slakandi að drekka heitan drykk eða borða hægtogrólega sinn uppáhaldsmat eða sitt uppáhalds nammi.
  • Það að sjúga ísmola og finna hvernig hann bráðnar hægt og rólega í munninum er líka róandi.

AÐRAR HUGMYNDIR

  • Lesa í uppáhalds bókinni þinni, teikna hugsanir og tilfinningar.
  • Losa um tilfinningar með því að gráta, kreista púða, skrifa hluti á blað, mála.
  • Það getur losað um streytu að hreyfa sig, ganga, hlaupa, fara í ræktina, iðka jóga, tai chi, hugleiða, elda mat.
  • Vertu skapandi og reyndu að láta þér detta eins mikið í hug og þú getur, sem þú heldur að geti róað huga þinn og lægt öldu tilfinninganna þegar þær rísa.

Það tekur tíma að æfa sig í að að stýra vanlíðan sinni betur. Með þrautseigju, ákveðni og stuðningi frá vinum, fjölskyldu, fagfólki eða öðrum sem þekkja það sem þú ert að ganga i gegnum, öðlastu smátt og smátt meira öryggi í að nota þær aðferðir sem virka best fyrir þig.  Það er mikilvægt að hrósa sjálfum sér fyrir hvert skref á leiðinni, líka þau litlu.

HJÁLPARLÍNA RAUÐA KROSSINS SÍMI 1717

Öruggur staður

Áfallaminningar geta valdið því að við upplifum yfirþyrmandi tilfinningar og óöruggi. Það er mikilvægt að skapa öryggi og traust, það leggur grunninn að því að vinna með áföllin að lenda þeim á öruggan hátt.

Þú velur þér þinn örugga stað, annaðhvort raunverulegan stað þar sem þér finnst þú vera örugg(ur) eða ímyndaðan stað.

Þegar þú ert í vanlíðan og ótta getur þú farið á þennan stað í huganum (eða í raun og veru) og grandskoðað allt sem er þar, hven hlut, hvern krók og kima og skynjað öryggið  sem staðnum fylgir.

Öruggur staður á heimili þínu

Sumum finnst gagnlegt að búa til öruggan stað heima, gæti verið í sófanum með hlýtt teppi yfir sér, að hlusta á uppáhaldstónlistina sína og sötra heitan drykk. Eða það gæti verið horn í herberginu með uppáhalds myndunum þínum á veggnum. Hvar sem þinn öruggi staður er, reyndu að gera hann eins öruggan og rólegan og þú getur.

Öruggur staður í huga þínum

Önnur leið er að búa til mynd í huganum. Þetta gæti verið raunverulegur staður þar sem þú hefur fundið fyrir hamingju og öryggi, eins og strönd eða skógur, eða þetta gæti verið einhver staður sem þú ímyndar þér. Notaðu öll skynfærin til að ímynda þér staðinn og gerðu hann eins raunverulegan og mögulegt er.  ímyndaðu þér til dæmis, hægan andvara, sólina skýna á andlit þitt, ölduhljóð og svo framvegis. Leyfðu líkamanum að slaka á þegar þú kemur á þinn eigin sérstaka og örugga stað.

Áætlun til að nota í krísu

Andleg krísa á sér stað þegar streita og erfiðleikar eru meiri en maður ræður við. Þá er eins engin lausn sé til, eins og maður sé fastur í gildru sem ekki er hægt að losna úr. Gott er þá að hafa hafa til taks viðbragðsáætlun sem hjálpar þér að komast í gegnum næstu mínúturnar, klukkustundirnar og dagana, þar til þér fer að líða betur.

Listi yfir „10 hlutir sem ég get gert þegar ég er í krísu.

Settu þennan lista einhverstaðar þar sem auðvelt er að náð í hann. Það er góð hugmynd að láta maka, vin eða góðan vinnufélaga vita af þessum lista, þetta fólk getur hvatt þig til að nota verkfærin á honum þegar þér líður illa.

Svona gæti listinn þinn litið út

1. Dreyfa athyglinni með því að laga til eldhúsinu.

2. Anda rólega, inn um nefið út um munninn.

3. Horfa á myndir af fjölskyldunni, ástvinum eða uppáhaldshlutum.

4. Hlusta á róandi tónlist.

5. Fara í heitt bað með ilmolíum.

6. Lesa hvetjandi tilvitnanir.

7. Fara á minn örugga stað, í huganum eða í raun og veru.

8. Lesa ”fyrstu hjálpar bréfið mitt til mín”.

9. Hringja í fjölskyldumeðlim eða vin.

10. Hringja í geðheilbrigðisstarfsmann eða hjálparlínu ef þörf er á því.

Bréf Þitt til þín

Þegar þú ert róleg(ur) og þér líður vel andlega, þá getur þú skrifað bréf til þín sem þú getur síðan lesið þegar þér líður illa og upplifir örvæntingu og kvíða. Það er mikilvægt að skrifa bréfið þegar þú ert örugg(ur) og þér líður vel. Þegar þú ert óöugg og hrædd áttu erfiðara með að hugsa skýrt.

Þetta er bréf skrifað af þér, til þín. Í því getur þú minnt sjálfa þig á ástæðurnar fyrir því að vinna áfram að bata og minnt þig á styrk þinn, hæfileika þína og mikilvægi þitt.

Þú gætir sett í bréfið lista yfir fólk í lífi þínu sem þér þykir vænt um og þykir vænt um þig og minnt þig á vonir þínar og drauma um framtíðina. Í því gæti verið listi yfir hluti sem þig langar til að gera og hvatningarorð frá vinum og fjölskyldumeðlimum. Minntu sjálfa þig á að nota þessi hjálpartæki og viðbragðshæfileika þína, til að halda þér öruggri (öruggum) og hjálpa þér út úr krísu.

Jarðtenging

Jarðtenging gefur þér ákveðna fjarlægð frá hugsunum þínum, tilfinningum og minningum, hún færir þig nær líðandi stund. Jarðtengingin hjálpar þér að taka eftir því sem er að gerast í kringum þig og þjálfar huga þinn í að vera hér og nú. Jarðtenging færir þér  jafnvægi milli þess að vera gagntekin af yfirþyrmandi tilfinningum og vera ótengd öllum tilfinningum.

Þegar tilfinningar, hugsanir og minningar eru of ákafar og yfirþyrmandi, upplifum við óöryggi og stjórnleysi. Okkur kann að líða eins og verið sé að draga okkur inn í ógnvekjandi aðstæður úr fortíðinni. Jarðtengingin veitir okkur tengingu við raunveruleikan, hér og nú,  og róar taugakerfi okkar.

Þú getur jarðtengt þig þegar þú ert;

  • Reið(ur)
  • Í uppnámi
  • Hrædd(ur)
  • Endurupplifir óþægilegar minningar
  • Færð martröð
  • Vilt forðast að nota sjálfskaðandi aðferðir til að takast á við álagið.

Jarðtengingaræfing 1: –  Taktu eftir umhverfi þínu.

  • Einbeittu þér að líðandi stund.
  • Taka eftir því hvar þú ert.
  • Segðu upphátt heiti á einum hlut sem þú sérð, einu hljóði sem þú heyrir og einni snertingu sem þú finnur fyrir. Dæmi: Ég sé eldhúsborðið. Ég heyri tónlist frá næstu íbúð. Ég finn hvernig hendurnar mínar snerta stólinn.
  • Lýstu (helst upphátt) hlutum, hljóðum, áferð, litum, lykt og formum í kringum þig. Til dæmis, „Eldhúsborðið er brúnt og með rispum. Það er úr við. Ég finn fyrir rispunum á yfirborði borðsins“ og svo framvegis. Endurtaktu þetta eins oft og þú þarft.

Jarðtengingaræfing 2:  – Búðu til jarðtengingarsetningu.

  • Jarðtengingarsetning samanstendur af nokkrum orðum sem eru jákvæð og minna þig á að þú ert á lífi núna og þú munt lifa af. Jarðtengingarsetningin viðurkennir allar tilfinningarnar sem þú upplifir og minnir þig á að þú ert örugg(ur) núna.
  • Til dæmis gætir þú notað setninguna „ég er hrædd(ur) og ég er örugg(ur) núna.  Orðið „og er mjög mikilvægt hér. Stundum er þetta kallað tvíþætt vitund – að vera meðvitaður um tvo mismunandi hluti á sama tíma.
  • Að öðrum kosti gætirðu kannski notað fullyrðingu sem minnir þig á styrkleika þína, eins og „Ég hef lifað af allt sem fyrir mig hefur komið og ég er örugg(ur) núna.“
  • Góð hugmynd er kannski að setja skilaboð hér og þar á heimili þínu sem færa þér uppörvandi og styrkjandi skilaboð.

Jarðtengingaræfing 3: –   Notaðu hluti sem gefa jarðtengingu.

Jarðtengingarhlutur er hlutur sem þú getur haldið á og hefur jákvæða merkingu fyrir þig og getur dregið athyglina frá vanlíðan þinni. Þegar þú byrjar að endurupplifa óþægilegar minningar eða tilfinningar getur þú haldið á hlutnum sem jarðtengir þig og skoðað hann vel, lit og áferð (hitastig, lit, yfirborð, lögun osfrv.). Góð hugmynd er að gefa hlutnum nafn, þannig að þú getir talað við hann. Jarðtengingarhluturinn þinn ætti að vera nógu lítill til að  þú getir borið hann með þér.

Fleiri aðferðir til að jarðtengja sig.

  • Láttu kalt vatn renna yfir hendur þínar, taktu eftir tilfinningunni sem það gefur.
  • Haltu eins fast um stólarmana og þú getur, taktu eftir spennunni, hvað finnur þú þegar þú gerir þetta.
  • Spenntu hné á móti stólörmum eða lófum,  á meðan þú andar þrisvar sinnum inn og út.
  • Snertu hluti í kringum þig: lyklana þína, fötin þín, borðið, veggina.
  • Taktu eftir áferð, liti, efni, þyngd, hitastig.
  • Berðu saman mismunandi hluti sem þú snertir: Er einn kaldari? Léttari?
  • Taktu eftir líkama þínum. Þyngd líkamans í stólnum; tilfinningunni þegar þú kreppir og fettir tærnar í skónum; tilfinningunni þegar þú hallar bakinu upp að stólbakinu.
  • Gakktu hægt, taktu eftir hverju fótspori, segðu „vinstri“ og „hægri“ við hvert skref.
  • Borðaðu eitthvað, lýstu bragðinu í smáatriðum fyrir sjálfum þér.
  • Einbeittu þér að öndun þinni, taktu eftir hverjum andardrætti þegar þú andar inn í gegnum nefið og út í gegnum nefið. Endurtaktu jákvæð og þægileg orð við sjálfan þig í hverjum í andadrætti. Til dæmis uppáhaldslit eða róandi orð eins og „örugg(ur)“ ​​eða „róleg(ur).

Almennar leiðbeiningar í sambandið við að gera jarðtengingar æfinar.

  • Jarðtengingu er hægt að nota hvenær sem er og hvar sem er án þess að annað fólk þurfi að verða vart við það.
  • Reyndu að hugsa um hlutina sem þú tekur eftir, alveg eins og þeir eru, án þess að dæma þá eða hugsa um þá sem góða/slæma eða að þú elskir/hatir þá.
  • Einbeittu þér að núinu og umhverfi þínu. Reyndu að hugsa ekki um fortíðina eða framtíðina.

Æfðu þig í að nota þessar aðferðir þegar þú ert róleg(ur) og þér líður vel, þannig verða þær þér tamari þegar þú þarft virkilega á þeim að halda.

Lilja Steingrímsdóttir, sál- og áfallameðferðarfærðingur MPF

lilja@liljas.is.  Sími: 8396609


Afmörkun-setja mörk

Afmörkun

Að geta fundið fyrir mörkum sínum og metið þörfina fyrir rými og fjarlægð við mismunandi aðstæður er mjög mikilvægt, bæði til að upplifa sig í eigin kjarna í aðstæðunum og til að koma fram á skýran hátt í samskiptunum.

Mörk eru mikilvægur þáttur í því að geta verið sannur og áreiðanlegur. Þessi mörk eru „ratsjá“ okkar gagnvart umheimsins. Þau upplýsa okkur um „hluti“ eða fólk sem við gætum rekist á. Án þessa, finnst okkur við óvarin.

Mörk snúast um hvernig við getum verið í samböndum og samskiptum við aðra, bæði við okkar nánustu, við samstarfsfólk og í fjölmenni. Hvað gerist inní í þér þegar einhver kemur nálægt þér? Hvaða viðbrögð hefur þú þegar einhver vill eitthvað annað en þú? Mörk eru líka menningarlega skilyrt, það er munur á því hvar mörkin liggja, hvað er ásættanlegt í eftir menningarheimum, en við höfum öll mörk. Húðin er okkar líkamlegu mörk. Að auki þurfum við öll persónulegt rými sem getur verið stærra eða minna eftir aðstæðum. Hugsaðu um hvernig það er að standa í troðfullri rútu eða sitja þrjú í sófa, það gæti verið of nálægt. Þetta rými er stundum kallað orkurými okkar, við getum viljandi minnkað ef það ef ekki nóg pláss í kring um okkur, en við þurfum að geta haldið því heilu.

Mörk geta líka verið félagsleg og tengd umhverfi og eignarhaldi. Ímyndaðu þér aðstæður þar sem þú ætlar að heimsækja vin þinn. Þið voruð búin að ákveða að hittast og kannski gera eitthvað saman, síðan koma allt í einu fleiri gestir sem vilja líka vera með og fá stóran hluta af athygli vinar þíns. Þú þarft að deila vini þínum með öðrum þegar þú hélst að þú ættir þá um stund ein. Hvað upplifir þú? Hér erum við að tala um félagsleg mörk. Þessi félagslegu mörk koma skýrt fram þegar við fáum „fast sæti“ í starfsmannaherberginu og enn skýrara ef það er vinnuborðið, skúffan eða skápurinn okkar.

Hvort sem það eru okkar persónulegu mörk, félagslegu mörk eða eignarhalds mörk sem farið er yfir, fáum við líkamleg viðbrögð. Dæmigerð viðbrögð geta verið: að vilja koma sér í burtu, hverfa, líta undan, snúa sér við, snúa höfði til hliðar, verða eirðarlaus í líkamshlutum, frjósa eða fara að hlægja. Sumir eru aldir upp við að hlusta ekki á eigin mörk. Einfalt dæmi er barnið sem er svolítið óöruggt gagnvart ókunnugum og felur sig á bak við föður eða móður, en er ýtt fram til að heilsa í stað þess að fá tíma til að skoða sig aðeins um og verða örugg og treysta sér til að stíga fram. Þetta er lítið dæmi, en ef barnið lendir oft í þessu þá endar það með því að það gefst upp á að hlusta á sín mörk. Sem fullorðin með með lélega tenginum við eigin mörk  gætum við orðið fyrir þrýstingi frá öðrum eða okkur sjálfum að framkvæma eitthvað sem við erum ekki er tilbúinn fyrir, eða eitthvað sem okkur finnst ekki rétt að gera.

Við getum líka á sama hátt tekið að okkur fleiri verkefni en við ráðum við. Ef við hlustum ekki á skilaboðin sem mörkin senda, gætum við haldið áfram á þennan hátt í einhvern tíma en á endanum sendir líkaminn okkur mjög sterk og hávær merki um að eitthvað sé að, hann reynir að vernda okkur. Við þurfum að gefa okkur tíma til að stoppa og athuga hvar við finnum að mörkin okkar liggja. Það þarf ekki að vera annað hvort / eða, stundum þarf bara smá lagfæringu til að við segjum já, eða við segjum já við sumu, ekki öllu. Án marka upplifum við okkur varnarlaus, brothætt og berskjölduð.

Án marka getum runnið saman við aðra og aðstæðurnar sem við erum í, þaðan er erfitt að aðgreina sig frá öðrum. Rannsóknir sýna að fólk nær bestu sambandi við hvort annað ef hver og einn er í sinni tilfinningu, sinni upplifun, og mætir hinum þaðan. Við megum ekki vera eins, líða eins, heldur vera ekta í samskiptunum við aðra.

Til þess að geta verið nálæg öðrum verðum við að finna að við erum aðskilin. Því nákvæmari sem við erum í því að taka eftir því þegar farið er yfir mörkin okkar, því betur getum við forðast að fara í vörn, og einfaldlega segja stopp/nei. Við getum farið út í heiminn öruggari og með meiri forvitni ef við vitum að við getum sagt nei þegar eitthvað er of mikið eða rangt fyrir okkur. Því betur sem við finnum fyrir takmörkum og mörkum okkar, því betur getum við aðgreint okkur frá öðrum og orðið skýrari í samskiptum.


Bodymap

Bodymap er sálrænt líkamskort sem sýnir sálrænt spennumunstur í vöðvum. Þetta sálræna spennumunstur bendir á hvaða varnarhættir hafa verið þróaðir í gegnum þroskaskeiðin.

 

Lesa meira um Bodymap

11 Færnisþættir

Ellefu færnisþættir sjálfsins - ,,Ego-functions" módel Bodynamic.

Þegar sálræn færni er sett í samhengi við líkamann er hún ekki lengur bara hugmynd heldur líka áþreyfanleg, eitthvað sem hægt er að upplifa og þjálfa.
Aðstæður í lífi okkar geta gert það að verkum að sum færni dregst saman á meðan önnur sterkari er áberandi og tekur á sig megnið af álaginu.
Það er aldrei of seint að þjálfa upp og styrkja sálræna færni. Í Bodynamic meðferð skoðum við hvaða sálræna færni er sterkust og hverja má draga fram og efla.

1. Tengslafærni snýst um getuna til að tengjast öðrum, um hversu opinn og móttækilegur maður er fyrir því að upplifa tengsl með mismikilli nánd, með því að gefa og þyggja.
Hún snýst líka um að taka á móti stuðningi og veita stuðning og getuna til að styðja við sig sjálfa og um hæfni okkar til að upplifa okkur tengd við umheiminn, andlega,
orkulega, tilfinningalega og huglægt, snýst um hvernig við skynjum og stýrum þessari upplifun. Að taka á móti stuðningi er ekki það sama og að vera borinn uppi. Skilyrði þess að geta tekið á móti stuðningi er að maður standi á eigin fótum og taki þannig á móti stuðningi sem síðan styður mann í að standa áfram á eigin fótum. Við lærum að styðja okkur sjálf með því að upplifa tilheyrandi stuðning utanfrá. Hendur sem lagðar eru á axlir manns gefa manni stuðning svo hægt sé að lenda, finna fætur á jörðinni eftir að hafa verið hátt uppi og flogið eða misst fótanna.
Vöðvar í þessari færni gefa okkur stuðning í kring um hjartað svo við missum það ekki, tínum því ekki eða gefum það frá okkur.

Þessi vöðvar gera okkur líka kleift að opna svo að
hjartaorka frá okkur streymi út og hjartaorka frá öðrum streymi inn.

Það er eitthvað í okkur sem vill LIFA.

2. Stöðufærni snýst um hvernig maður ber sig í lífinu og um að standa á eigin fótum; hún snýst um afstöðu til gilda, viðmiða. Hún snýst um það hvort ég haldi haus eður
ei.

3. Kjarnafærni snýst um getuna til að vera í tensglum við sjálfa sig og um það hvort og hve mikið þú virðir og metur sjálfa þig. Hún snýr að mannlegri hæfni til að vera í
sambandi við sjálfa sig, hve mikla sjálfsvirðingu maður hefur og um mat á eigin sérstöðu, “ég er einstök, engin er eins og ég”. Með því að þjálfa skynjunina á kjarnanum getum við æft okkur í hvað okkur líkar við og hvað okkur mislíkar; hverju við höfum áhuga á og hverju við viljum fá meira af.

4. Afmörkunarfærni snýst um færnina til að afmarka sig á lifandi hátt í tengslum við aðra og umheiminn.
Að geta fundið fyrir mörkum sínum og metið þörfina fyrir rými og fjarlægð við mismunandi aðstæður er mjög mikilvægt, bæði til að upplifa sig í eigin kjarna í mismunandi aðstæðunum og til að koma fram á skýran hátt í samskiptunum. Mörk eru mikilvægur þáttur í því að geta verið sannur og áreiðanlegur. Þessi mörk eru
„ratsjá“ okkar gagnvart umheiminum. Þau upplýsa okkur um „hluti“ eða fólk sem við gætum rekist á. Án þessa, finnst okkur við óvarin. Mörk snúast um hvernig við getum
verið í samböndum og samskiptum við aðra. Bæði við okkar nánustu, við samstarfsfólk og í fjölmenni. Hvað gerist inní í þér þegar einhver kemur nálægt þér? Hvaða viðbrögð hefur þú þegar einhver vill eitthvað annað en þú?

5. Raunveruleika- og jarðtengingarafærni snýst um getu manneskunnar til að viðhalda tengingu við undirlagið / jörðina, um getuna til að kanna raunveruleikann og um það
að vera jarðtengd og á sama tíma opin fyrir andlegri upplifun. Hún snýst um að upplifa veruleikann “eins og hann er” þar sem við erum stödd, hér og nú og samtímis
vera opin fyrir því óáþreyfanlega. Ef við erum mjög hröð minnkar jarðtengingin og við fljúgum en eigum erfiðara með að lenda. Ef við erum of jarðtengd þyngist andinn, situr fastur, kemst ekki úr sporunum og við sjáum ekki leiðina út. Við þurfum báða þessa krafta, þá sem tengja
okkur við jörðina og þá sem gera okkur kleift að létta af okkur byrgðinni, takast á loft og fljúga þangað sem hugarflugið og ímyndunaraflið fær notið sín.
Þessi færni felur í sér að vita að veruleikinn er ekki annaðhvort eða, heldur bæði og. “Jarðtenging er ákaflega mikilvæg fyrir líkama og sál. Jörðin hefur gríðarlega sterkt
segulsvið sem eykur heilbrigði í líkamanum og gerir manni kleift að athafna sig betur í daglegu lífi og koma hlutum í framkvæmd. Það að vera ójarðtengdur getur orsakað
m.a. að þú missir einbeitinguna auðveldlega, átt erfitt með að róa hugann, ofhugsar eða ferð í þráhyggju, upplifir kvíða og áhyggjur, ferð í tilfinningauppnám og
ofurneikvæðni, átt erfitt með að þola utanaðkomandi áreyti, ert áhrifagjörn og tekur inn á þig tilfinningar annarra. Jarðtenging getur gefið þér þér stöðugleika og tilfinningu fyrir að vera skýr, kjörnuð, sterk og einbeitt o.s.frv.” Jóhanna Jónasar

6. Félagsleg jafnvægisfærni snýst um jafnvægi milli þess að vera tengd sjálfri sér og
öðrum, jafnvægi milli þess að tjá tilfinningar sínar og að geyma þær innra með sér.

7. Hugræn færni snýst um að átta sig, grípa og skilja sjálfa sig og umheiminn.

8. Orkustýringarfærni snýst um að byggja upp, rúma og tjá kraftmikið orkuástand og tilfinningar.
Þessi færnisþáttur fjallar um að stýra orkunni, beina henni einhvert og skrúfa upp eða niður í henni, eftir þörf og aðstæðum. Hann snýst um að rúma (contain) og halda utan
um tilfinningar, án þess að tapa tengingunni við aðra, hann á heima í búknum og er tengdur öndun og vöðvum sem tengjast öndun.
Ef þú andar kröftuglega nokkrum sinnum rís orkan í þér og að sama skapi dregur niður í henni ef þú andar grunnt og hægt. Ef þú upplifir öndunarvöðvana fjarlæga,
daufa, í uppgjöf, skapar það yfirleitt minni löngun til að upplifa sterkar tilfinningar og kraftmikið ástand. Orkan eða tilfinningarnar “leka út”. Við getum notað öndunina til
að róa okkur og gera okkur kleift að hugsa skýrar í erfiðum aðstæðum, andað inn með nefinu, út um munninn og hægar út en inn. Ef öndunarvöðvar eru stífir og stirðir er
haldið aftur af tilfinningum og tjáning þeirra staðnar.
Orkustýringarfærni felur í sér að rúma tilfinningar og að tjá þær. Við getum verið reið án þess að segja neitt eða bregðast við, en reiðiöldurnar bylgjast samt innra með
okkur eða við getum tjáð reiði okkar á einhvern hátt og þannig stýrt tilfinningunni. Vöðvarnir sem tilheyra þessari færni hjálpa okkur að stýra hve mikið við tjáum og
hve mikið við geymum.

9. Framkomufærni snýst um að stíga inn á “sviðið”, tjá sig, með augum og andliti og hvort líkamstjáningin er upprétt og taki á móti öðrum eða álút og hikandi í að nálgast aðra.

10. Samskiptafærni snýst um hæfnina til að taka inn og hafa samskipti við umhverfið. Grípa í, halda fast, sleppa, krefjast, taka sér pláss, taka við, gefa frá sér og
taka að sér verkefni.
Þessi færni tengist vöðvum í upphandleggjum, höndum, nokkrum axlarvöðvum, vöðvum sem halda um brjóstkassa, vöðvum í kringum munn og augu, bindivef í kringum naflann og setvöðvum. Þetta eru vöðvar sem virkjast þegar við höldum fast, togum til okkar, ýtum frá okkur, höldum einhverju frá okkur í ákveðinni fjarlægð, sleppum tökunum og berum eitthvað.

11. Kynvitundunarfærni snýst um að upplifa, bera og tjá kyn sitt, kynvitund, kynhneigð og næmar tilfinninga


7 Þroskaskeið persónuleikans og mótun varnarhátta

Þroskasálfræðimódel Bodynamic

 

Bodynamic hefur kortlagt samhengið milli vöðvaspennu og varnarhátta.  Varnarviðbrögð okkar fara í tvær áttir, í átt að eftirgjöf/uppgjöf og í átt að mótstöðu.

Í æsku byrjum við að móta varnarhætti okkar, þá mynda þeir í okkur djúpa kóða, sumir eru aðgengilegir og tiltölulega sveigjanlegir, aðrir liggja djúpt og það getur verið erfitt að breyta þeim.

Varnarhátturinn “uppgjöf/eftirgjöf” myndast þegar við bregðumst við álagi í samskiptum með því að gefa eftir hluta af sjálfum okkur til að viðhalda tengingunni. Uppgjöfin veldur undirspennu í vöðvum og bindivef, sem skapar tómleikatilfinningu “eins og eitthvað vanti…veit ekki hvað”. Þeir sem eru djúpa innprentun uppgjafar geta verið með “svartar holur” – vita ekki hvað þeir vita ekki, taka því að sé verkefni sem þeir kunna ekki eða geta ekki og taka að sér miklu meira en þeir ráða við.

 Varnarhátturinn “mótstaða/yfirspenna” skapast þegar við bregðumst við álagi með því að fórna tengslunum til að halda í okkur sjálf og það sem við teljum vera okkar. Þessi varnarháttur býr til brynju og þeir sem eru með mikla mótstöðu eru stífir, yfirspenntir og með yfirspennta vöðva. Þessi varnaraháttur ýtir frá sér og á erfitt með að hleypa inn.

Það er ákjósanlegt að geta fært sig meðvitað milli uppgjafar og mótstöðu, án þess að læsast. Þannig skapast vitund um eigin styrkleika og veikleika sem aftur býr til heilbrigt sjálfsöryggi. Þeir sem hafa “nógu” sveigjanlegan aðgang að báðum varnarviðbrögðunum búa yfir “hvítri holu”, virku innsæi og gagnlegri innri þekkingu sem hægt er að reiða sig á, þeir hafa breytileg orku sem aðlagar sig eftir þörfum. Allir þurfa að byggja upp varnarhætti sem tilheyra þeim verkefnum sem hvert þroskaskeið kemur með, sveigjanlegir varnarhættir eru nauðsynlegir til að takast á við lífið.

Bodynamic kerfið flokkar þroskaskeið barnsins í sjö tímabil, frá fæðingu að unglinsárum. Á hverju skeiði leika ákveðnir vöðvar aðalhlutverkið og tengjast þeim þroskaverkefnum sem þá eru í aðalhlutverki.

 


7 þroskaskeið og mótun varnarhátta

1. Tilvilst: Frá fyrir fæðingu til 3ja mánaða. 

  • Viðfangsefni – hafa tilverurétt, mega vera hér eins og maður er.
  • Undirspenna (Uppgjöf) – Mental. Öll orkan er í hugsuninni, á erfitt með tilfinningar.
  • Yfirspenna (Mótþrói) – Emotional. Öll orkan í tilfinningunum, á erfitt með hið rökræna og abstrakt hugsun.
  • Ákjósanleg staða – örugg, glöð yfir að vera til.

2. Þarfir: Frá 1 mánaða til 1,5 árs.                   

  • Viðfangsefni – hafa rétt á að fá þarfir sína uppfylltar og finna fyrir mettu ástandi.
  • Undirspenna – Óhamingjusamur, leitar stöðugt, mikill sultur, heimurinn hrynur ef tenging rofnar, gerir allt til að þú farir ekki.
  • Yfirspenna – Tortrygginn, “hvað meinar þú?”. Ég fæ aldrei það rétta, þú átt að vita hvað ég þarf, á ekki að þurfa að segja þér það, þá gefur þú bara af því ég bað um það eða af því þú vilt fá eitthvað frá mér.
  • Ákjósanleg staða – Örugg um að þarfir hennar muni verða uppfylltar.

3. Sjálfstæði: Frá 8 mánaða til 2,5 árs.         

  • Viðfangsefni – hafa rétt á að upplifa tilfinningar, forvitni og sjálfstæði.
  • Undirspenna – Orðlaust dreifir athyglinni. Verður tóm, fer á Wc þegar á að tala um eitthvað erfitt, fer að gera eða annað, missir getuna til að svara, vill hverfa. Fær orku til að gera hluti þegar ein, þessi orka lekur út með öðrum.
  • Yfirspenna – Talsett athyglisdreifing: Leiðir talið á aðrar brautir, talar og talar, dregur athyglina frá því sem er óþægilegt, hreyfir sig mikið, alltaf að gera eitthvað, með bakdyrnar opnar, erfitt með skuldbindingar í sambandi.
  • Ákjósanleg staða – Tilfinningalegt sjálfstæði, frelsi til að vera forvitin og kanna heiminn.

4. Vilji: Frá 2 til 4 ára                                           

  • Viðfangsefni – hafa rétt á að vilja eitthvað og ætla eitthvað
  • Undirspenna – Fórnarlamb, ég skal gera þetta, þetta er allt ”mér að kenna”.
  • Yfirspenna – Dómarinn, dæmir aðra út og suður, kaldhæðinn, ”þér að kenna”.
  • Ákjósanleg staða – Sjálfstraust, ákveðni, kraftur og úthald.

5. Kynvitund og kærlelikur: 3 til 6 ára           

  • Viðfangsefni – hafa rétt á að upplifa, ást og eigin kynvitund.
  • Undirspenna – Rómantísk. Dagdraumar, bíður eftir prinsinum/prinsessunni á hvíta hestinum, meiri áhuga á rómantík og fantasíu en jarðtengdum raunveruleikanum.
  • Yfirspenna – tælandi (seductive), gengur beint að verki, tælir til að fá strax, ekki rómantískur.
  • Ákjósanleg staða – jafnvægi milli hjarta og kynorku.

6. Skoðanir: 5 til 9 ára                                         

  • Viðfangsefni – hafa rétt á að móta eigin skoðanir
  • Undirspenna – forðast að hafa skoðanir, “passiv agressiv”, gefast upp í rökræðum, setja upp svip.
  • Yfirspenna – sterkar skoðanir, hafa alltaf rétt fyrir sér, þrjóskir og gefa ekki eftir, snobbaðir.
  • Ákjósanleg staða – Vita hvað þeir hugsa og eru opnir fyrir því sem aðrir hugsa.

7. Samstaða og keppnisskap 7 til 12 ára       

  • Viðfangsefni – hafa rétt á að tilheyra hóp án þess að þurfa að keppa eða setja eitthvað á svið.
  • Undirspenna – Málamiðlarar. Gefa frá sér metnað og að sýna hvað í þeim býr, forðast að skara fram úr, til að hafa alla í hópnum jafna og halda friðinn.
  • Yfirspenna – Keppa, vill vera í forystu/best. Getur átt erfitt með að falla inn í hópinn vegna þessa.
  • Ákjósanleg staða – jafnvægi milli sjálfs og hóps. Örugg í að leiða, skara framúr eða vera meðlimur hópsins.


Antequera

Antequerea

Antequera er kölluð ,,krossgötur Andalúsíu” og er miðja vegu milli Sevilla, Ronda, Málaga og Granada.

Heimsókn í þennan sögufræga andalúsíska bæ er ferðalag næstum 5.000 ár aftur í tímann, saga borgarinnar nær aftur til bronsaldar með innfæddum Íberíubúum.

Í Antequera er fjöldi grafhýsa, rómverskra baða, Márakastala, gotneskra kirkna og klukkuturna frá barokk tímanum.

Þegar horft er á Antequera úr fjarska er borgin dæmigerður miðaldabær, með kirkjuturnum og hlöðnum veggjum frá tímum Mára. Í dalnum fyrir neðan liggja frjósöm ræktarlönd sem Guadalhorce-áin gefur líf. Í aldir hefur þetta svæði verið eitt það frjósamasta í Andalúsíu og er nú leiðandi í ræktun á aspas, korni og ólífum.

Í Antequera eru hin svokölluðu Dolmen sem eru forn grafhýsi, byggð á nýsteinöld og koparöld frá um 3750 til 2200 f.Kr. Þau voru byggð af bændum sem sýndu ótrúverðuga þekkingu á byggingarlist og verkfræði á þeim tíma. Notast var við risastóra steina sem voru grafnir upp í töluverðri fjarlægð. Þetta bendir til vel skipulagðs samfélags með sterka forystu og trúarleg lífsgildi. Áætluð þyngd eins af þaksteinunum í Menga-dolmeninu, er talin vera um 200 tonn. Til samanburðar má geta þess að þyngsti steinninn á hinum fræga Stone Henge-svæði í Bretlandi er 40 tonn. 


I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.

I am text block. Click edit button to change this text. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.